Trabantinn, blessuð sé minning hans

Frábær mynd um þann glæsilega eðalvagn Trabantinn var í sjónvarpinu núna fyrir helgina. Ég varð eiginlega miður mín yfir því að Trabbinn  sem tilheyrði minni fjölskyldu er horfinn af sjónarsviðinu.  Sá góði bleiki og svarti bíll átti stórleik í fjölskyldulífinu um tíma.  Þegar við hjónin sáum  fram á að elsta barn var komið með bílpróf og fjölskyldubíllinn stefndi í að verða að bitbeini og jafnvel í stórhættu á að fá á sig ótímabærar skrámur lögðumst við í pælingar.  Telpukornið var líka í stórhættu á að leggjast í djamm! Djamm kostar peninga og nú sáum við okkur leik á borði.  Ef telpukornið væri látin í stórskuldir að hætti sannra íslendinga væri minni djammhætta því innkoman færi í að borga skuldir! Hún eignaðist nýjan einkabíl. Ökumaðurinn verður jú að vera edrú! Við hefðum fjölskyldubílinn í friði fyrir áhættuökumennsku. Var þetta ekki bara snilld.  Henni fannst þetta frábært.

Það var pantaður nýr Trabant hjá IH og tekið bankalán. Nú gat stúlkubarnið ráðið sig í karlavinnuna sem var í tveggjastrætóstunda fjarlægð og gaf meira af sér en kvennavinnan í heimabænum!

Það var stórkostleg stund þegar nýir eigendur og nokkrir tugir Trabba hittust í porti á Ártúnsholtinu.  Bílarnir voru ræstir af misóvönum Trabant ökumönnum.  Blátt reykjarskýið lá yfir planinu og bílarnir tröbbuðu nafnið sitt glaðir í nýjum heimkynnum.  Mín kona kom stolt eins og Range Rover eigandi akandi í hlað með pabbann sinn skælbrosandi í framsætinu. Þau voru æðisleg bíllinn og dóttirin. Bíllinn gekk undir nafninu Hraðbrandur.  Þessi bíll var frábær í snjó og ófærð. Ef eitthvað stóð fyrir öðrum bílum þá smaug Trabantinn framhjá.  Einu sinni lá okkur mægum á niður Laugaveg að kvöldlagi.  Allt fast í snjó og við skutumst bara framhjá eftir gangstéttinni enda enginn á gangi í augnablikinu og bíllinn örmjór! Þegar frá leið þótti eigandanum grái liturinn full grár.  Þá skelltum við mæðgur okkur í málningargallann og máluðum bílinn bleikan að framan en svartan að aftan og voru bleikar eldtungur þar sem litirnir mættust.  Þessi glæsilegi bíll fékk bréf frá öðrum Trabanti sem var svartur og rauður með eldtungum, sá var orðinn Trabant"pikupp" tveggja manna töffarabíll. Hann vildi trúlofast okkar bíl! Eigendur bílanna hittust aldrei og ég veit ekki hvernig fór með trúlofunina.  Eftir langa og dygga þjónustu endaði Hraðbrandur litli í margra bíla árekstri og var klesstur bæði að framan og aftan. Þótti ekki svara kostnaði að gera við hann eftir þau ósköp.

Seinna eignaðist ég svo Trabantakandi tengdadóttur. Þótti það kostur á stúlkunni þeirri.


Bloggfærslur 20. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband