28.2.2008 | 22:21
Hjúskaparvandi á Spáni og vændi á elliheimilum í Danmörku
Hroðalegar fréttir af heimilisofbeldi á Spáni voru í kvöldfréttunum á RúV. Fjórar konur myrtar af eiginmönnum sínum á einum sólarhring. Sextán konur hafa verið myrtar það sem af er þessu ári. Við erum ekki búin með nema tvo mánuði af því. Það er greinilega eitthvað mikið að þegar svona hlutir gerast. Konur sem talað var við kölluðu eftir harðari dómum. Mér finnst það skjóta skökku við. það þarf að taka á málinu löngu löngu áður en það kemur til dómara.
Önnur frétt vakti athygli mína. Vændiskaup danskra hjúkrunarkvenna til handa umbjóðendum sínum á vistheimilum. Þær ku kaupa þessa þjónustu til að þurfa ekki að hafa karlagreyin uppdópuð! Þegar karlar eru orðnir svo elliærir að þeir geta ekki sjálfir orðið sér úti um kvenfólk þá rjúka hjúkkur upp til handa og fóta og panta vændiskonur! Auðvitað verður að fullnægja þessari þörf eins og öðrum sagði kynfræðingurinn káti. Hvað með elliærar kellingar?? Hver gerir eitthvað fyrir þær? Bara spyr sisvona.
Það eru sem sagt einungis tvö ár síðan að þessi viðskipti hjúkrunarfólks voru bönnuð í Kaupmannahöfn, en eru leyfð annarsstaðar. Frekar finnst mér þetta vera komið úr böndum hjá frændum okkar dönum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2008 | 19:33
Ráðherrann hefur talað og gefið tóninn
Jæja kæru félagar nú hefur ráðherra menntamála talað! Hækka þarf laun kennara. (Er þetta sami ráðherra og lét það átölulaust að við værum send heim úr kjarabaráttu með lagaboði án launahækkana? Ekki einu sinni svo vel að við héldum í við verðbólgu!)
Það eru greinilega góðir tímar framundan. Ráðherra sem hefur ekkert með launamál að gera hefur talað og helst að skilja á kennarforystunni að það eina sem við þurfum að gera er að rétta út lófann og í hann komi þessi líka góða leiðrétting á laununum okkar... ef ekki bara hellings launahækkun. Talað er eins og við kennarar séum í einhverskonar limbói og hægt verði að hækka kennara án þess að horfa til annarra stétta sem einnig eru í launabaráttu. Ég hef enga trú á að við fáum einhverja sanngjarna hækkun á launum okkar. Margoft búin að brenna mig á bjartsýninni. Það gerist ekki neitt markvert í launa- og kjaramálum kennara fyrr en við kljúfum okkur í smærri einingar sem selja vinnu sína á verktakabasis. Svona fjölmenn stétt kostar svo mikið í hverri hækkun að það verður ekkert um slíkt að ræða. Hvað gerist ekki í Reykjavík þegar talað er um samskonar eingreiðslu og var í Kópavogi. Bennt er á óhemjuháa tölu og sagt að slíkt komi ekki til greina. Svipað hlutfall hlýtur að vera á milli innkomu og fjölda kennara beggja sveitarfélaga. En það er staðreynd að margir kennarar eru að hugsa til hreyfings og svo verður áfram nema að til verulegra kjarabóta komi. Núna er stéttin orðin mjög "gömul" og á næstu komandi árum fara út margir ellikennarar eins og ég. U.þ.b. 100 manns á ári. Tiltölulega fáir eru "miðaldra" í starfsaldri talið. Ungu kennararnir stoppa stutt og eru á mikilli hreyfingu á milli staða. Rétt eins og annarsstaðar á vinnumarkaði er það liðin tíð að fólk "æfiráði"sig. Þessvegna þarf að gera vel við hæfileikamikið fólk sem öðrum kosti menntar sig út úr kennslunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)