1.5.2008 | 22:01
Sól, sól og hiti, fangar og rusl
'I dag var hreinsunardagur í húsfélaginu í Hlíðarþúfum. Fólk tók svo sannarlega til hendinni og afraksturinn voru tveir stórir ruslagámar. Svo voru grillaðar pulsur sunnan undir hesthúsvegg og þar sem við gröðkuðum í okkur matnum blasti við glænýtt folald sem tók á sprett í kring um mömmuna sína. Sólin bakaði okkur svo nú eru kinnar hreinsunarfólks rauðar eins og pulsur voru hér í den! Eftir að hafa skroppið á bak, nú og teymt undir hestafólki framtíðarinnar kemur kona sæl og kát heim til sín.
Smáskrepp niður með Hamarskotslæknum og hvað blasir þar við í kvöldsólinni í friðsæla bænum mínum. Tvær vörpulegar löggur hvor með sinn handjárnaðanfyriraftanbak fangann. Helst var að sjá að þetta væri svona lögga úti að ganga með fanga, eins og ég úti að ganga með Míró litla í bandi. Enginn löggubíll sjáanlegur og þeir fjórir bara að rölta framhjá öndunum. Voru mennirnir kannski með brauðmola í poka? Ekki sjáanlega. Er kannski verið að taka til í bænum á afmælisári. Við erum jú alveg að verða 100!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2008 | 21:46
"Útvistun kennslu"
11.8%verðbólga og kjör kennara eru rétt með 15-25% samningi! Það er alveg ástæðuleust að missa sig af hrifningu. Við eru ekki að gera neitt meira en rétt að hanga í verðbólgunni. Engin kjarabót þarna. Gömlu greyin sem hafa þraukað eins og ég í gegn um hverja hörmungarsamninga eftir aðra erum svo sem hætt að trúa á að það rætist úr okkar kjörum. Við fáum 15%. Fréttirnar í kvöld endurómuðu af verðhækkunum sem sópa upp þessum samningi.
Skoðun mín er sú að það verður ekki fyrr en núverandi kerfi verður brotið upp og við horfum til einkaskóla eða förum að bjóða í einstaka þætti kennslunnar að einhverjar kjarabætur verða. Við kennararnir verðum að vera á undan. Hugsa málið áður en í meira óefni er komið. Hvernig væri að´"útvista" kennsluna. Þetta var gert við læknaritara. Verum bara skrefinu á undan og bjóðum útvistun á okkar forsendum. Td væri hægt að gera rekstrafélagi skóla (bæjafélagi) tilboð í íslenskukennslu á unglingastigi. X margir unglingar á x krónur. Öll sex ára gerð læs fyrri x krónur. Verktakavinna.
Það er allavega alveg ljóst að á meðan við semjum sem einn risastór hópur þá verður ekki mikið um leiðréttingu.
Jú jú ég er bara full af ergelsi og pínu fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa enn og aftur gert mér vonir um kjarabætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2008 | 19:20
Skólabörn og sorphirðing
Nú er þar komið að mér sem kennara er stórlega misboðið. Þar á ég við mína yfirboðara að eiga, þe skólastjórnendur og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði. Þessu góða fólki hefur sem sagt dottið það snjallræði í hug að grunnskólabörn taki að sér gegn gjaldi að þrífa bæinn. Þetta á að gerast á skólatíma og undir verkstjórn kennara. Til þess að kennarar taki þessu vel er lesið yfir starfsmönnum úr Aðalnámsskrá grunnskóla. Sem sagt grunnskólinn kominn á launaskrá hjá bænum, eftirlitsmaður bæjarins tekur verkið út og ef það er unnið samkvæmt hans geðþóttaákvörðun um gott verk þá er verið að tala um bónus. Alls er þetta 200.000 kall..ef vel er unnið. Maður spyr sig hvert stefnir grunnskólinn? Sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að grunnskólabörnin sópuðu göturnar líka, en þar fannst fólki komið nóg. Ruslatínslan væri nægt verkefni, enda er ekki verið að tala um að rölta um umhverfið einu sinni eða svo heldur nokkrum sinnum. Frjálsum félagasamtökum í bænum var einnig gert þetta kostaboð og er vitað til að þau hafi orðið kát við enda klóstettrúllusala orðin nokkuð mettaður markaður.
Eru foreldar sáttir við þessa barnavinnu sem hefur fram til þessa verið á verkefnalista Áhaldahúss bæjarins. Þykir þeim í lagi að námstími barnanna fari í ruslatínslu í heilu hverfunum. Maður spyr sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2008 | 23:37
Brák
Við í Mennigarfélagi gáfaðra kvenna (MGK) fórum í leikhús í Borgarnesi í fyrrakvöld. Fyrst var etin súpa seiðkonunnar. Rosagóð súpa með kiðlingakjöti og ýmsu öðru góðgæti. Þá var var það seiðkonan Brynhildur sem sagði okkur söguna af Brák fóstru Egils Skallagrímssonar. Þar framdi hún mikinn galdur og leiddi okkur um sögusvið ambátta og annarra á fyrstu árum borgara á Mýrum. Stókostlega góð sýning og alveg hægt að mæla með henni, þrátt fyrir strekking undir Hafnarfjalli.
Þetta var í annað sinn á stuttum tíma sem við í MGK sóttum menningarviðburð. Hitt var La Traviata sem við sáum í hinni vikunni. Þar fóru á kostum Sigrún og Tómas ásamt kórnum. Vel varðveitt leyndarmál bæði tvö. Enda hafa þau mest sungið erlendis á undanförnum árum. Þetta var ein alfallegasta óperusýning sem ég hef séð hjá 'Ió. Glæsilegur flutningur í alla staði. Það eina sem pirraði mig var of stór sviðsmynd fyrir okkar smáa óperusvið og svo var eitthvað alvarlega gallað við búning Sigrúnar. En þetta eru bara smámunir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 21:56
Vændisumræða í sjónvarpinu
Bara ein spurnig út í loftið.
Ef hamingjusama danska vændiskonan er svona stolt af vinnunni sinni og sér sjálfri af hverju er hún þá að fela sig í skuggamynd? Þetta hefði getað orðið svo bráðgóð auglýsing fyrir fyrirtækið hennar!
Nei takk allar góðar sjálfstæðar konur, ekkert vændi. Á meðan við getum ekki sagt við dætur okkar að vændi sé frábært kvennastarf þá skulum við ekki ætla að það sé öðrum konum gott starf. Gerum allt það sem við getum til að útrýma því.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365631/0
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2008 | 22:21
Hjúskaparvandi á Spáni og vændi á elliheimilum í Danmörku
Hroðalegar fréttir af heimilisofbeldi á Spáni voru í kvöldfréttunum á RúV. Fjórar konur myrtar af eiginmönnum sínum á einum sólarhring. Sextán konur hafa verið myrtar það sem af er þessu ári. Við erum ekki búin með nema tvo mánuði af því. Það er greinilega eitthvað mikið að þegar svona hlutir gerast. Konur sem talað var við kölluðu eftir harðari dómum. Mér finnst það skjóta skökku við. það þarf að taka á málinu löngu löngu áður en það kemur til dómara.
Önnur frétt vakti athygli mína. Vændiskaup danskra hjúkrunarkvenna til handa umbjóðendum sínum á vistheimilum. Þær ku kaupa þessa þjónustu til að þurfa ekki að hafa karlagreyin uppdópuð! Þegar karlar eru orðnir svo elliærir að þeir geta ekki sjálfir orðið sér úti um kvenfólk þá rjúka hjúkkur upp til handa og fóta og panta vændiskonur! Auðvitað verður að fullnægja þessari þörf eins og öðrum sagði kynfræðingurinn káti. Hvað með elliærar kellingar?? Hver gerir eitthvað fyrir þær? Bara spyr sisvona.
Það eru sem sagt einungis tvö ár síðan að þessi viðskipti hjúkrunarfólks voru bönnuð í Kaupmannahöfn, en eru leyfð annarsstaðar. Frekar finnst mér þetta vera komið úr böndum hjá frændum okkar dönum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2008 | 19:33
Ráðherrann hefur talað og gefið tóninn
Jæja kæru félagar nú hefur ráðherra menntamála talað! Hækka þarf laun kennara. (Er þetta sami ráðherra og lét það átölulaust að við værum send heim úr kjarabaráttu með lagaboði án launahækkana? Ekki einu sinni svo vel að við héldum í við verðbólgu!)
Það eru greinilega góðir tímar framundan. Ráðherra sem hefur ekkert með launamál að gera hefur talað og helst að skilja á kennarforystunni að það eina sem við þurfum að gera er að rétta út lófann og í hann komi þessi líka góða leiðrétting á laununum okkar... ef ekki bara hellings launahækkun. Talað er eins og við kennarar séum í einhverskonar limbói og hægt verði að hækka kennara án þess að horfa til annarra stétta sem einnig eru í launabaráttu. Ég hef enga trú á að við fáum einhverja sanngjarna hækkun á launum okkar. Margoft búin að brenna mig á bjartsýninni. Það gerist ekki neitt markvert í launa- og kjaramálum kennara fyrr en við kljúfum okkur í smærri einingar sem selja vinnu sína á verktakabasis. Svona fjölmenn stétt kostar svo mikið í hverri hækkun að það verður ekkert um slíkt að ræða. Hvað gerist ekki í Reykjavík þegar talað er um samskonar eingreiðslu og var í Kópavogi. Bennt er á óhemjuháa tölu og sagt að slíkt komi ekki til greina. Svipað hlutfall hlýtur að vera á milli innkomu og fjölda kennara beggja sveitarfélaga. En það er staðreynd að margir kennarar eru að hugsa til hreyfings og svo verður áfram nema að til verulegra kjarabóta komi. Núna er stéttin orðin mjög "gömul" og á næstu komandi árum fara út margir ellikennarar eins og ég. U.þ.b. 100 manns á ári. Tiltölulega fáir eru "miðaldra" í starfsaldri talið. Ungu kennararnir stoppa stutt og eru á mikilli hreyfingu á milli staða. Rétt eins og annarsstaðar á vinnumarkaði er það liðin tíð að fólk "æfiráði"sig. Þessvegna þarf að gera vel við hæfileikamikið fólk sem öðrum kosti menntar sig út úr kennslunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 16:14
Skortur á kennurum! Réttur brotinn á nemendum.
Forsíða Fréttablaðsins í gær er undirlögð af þessari staðreynd. Kennarar eru á flótta út úr skólunum vegna lélegra kjara. Hvað eftir annað höfum við verið send inn í skólana úr kjarabaráttu með lagaboði. Enginn kennari trúir á að við fáum leiðréttingu á launum í næstu kjarasamningum. Enginn sem ég hef heyrt í. Kennarar sem eru komnir með reynslu og sjá fram á mörg ár enn í starfi eru að mennta sig burt úr kennslu! Það væri gaman að vita hve margir kennarar eru í fjarnámi að læra til annarra starfa. Ungu kennarnir eru enn frískir og hlaða á sig aukavinnu sem nóg er af. Það er hægt í nokkurn tíma. En þreyttur kennari er ekki góður kennari. Það kemur að því að þreytan étur upp starfsgleðina. Það er skemmtilegt starf að kenna ef starfsumhverfið er gott. Á það ekki um öll störf? 'Ojú. En þegar nær öll vinnuævin hefur verið þannig að manni finnst maður aldrei vera metinn til sanngjarnra kjara þá vellur upp óánægja og leiðindi. Það er það sem við stöndum frammi fyrir i grunnskólunum núna. Þeir eru að fyllast af leiðbeinendum því kennararnir eru á förum eða farnir.
10% kennslukrafta í Hafnarfirði eru leiðbeinendur og þeim fjölgar ört. 'Agætis fólk. En nýstúdent sem fær 4.bekk í umsjón er kannski ekki það sem við viljum sjá í sömu andrá og ráðherra menntamála tala um meistarnám fyrir grunnskólakennara!
Ekki hægt að halda úti smíðakennslu í öllum skólum hér í bænum. 'A öðrum stað hefur skólabókasafninu nærri alveg verið lokað og safnakennarinn notaður í annað. Bara fátt eitt nefnt.
Nei ég á ekki von á kjarasamningi sem skilar neinu öðru en því sem undanfarnir samningar hafa gert= meiri vinnu en EKKI auknum launum
Þessvegna fékk ég mér aðra vinnu til að hafa efni á að vera kennari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2008 | 19:14
ó Reyjavík ó Reykjavík!
Nýr meirihluti kynntur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.1.2008 | 00:02
Trabantinn, blessuð sé minning hans
Frábær mynd um þann glæsilega eðalvagn Trabantinn var í sjónvarpinu núna fyrir helgina. Ég varð eiginlega miður mín yfir því að Trabbinn sem tilheyrði minni fjölskyldu er horfinn af sjónarsviðinu. Sá góði bleiki og svarti bíll átti stórleik í fjölskyldulífinu um tíma. Þegar við hjónin sáum fram á að elsta barn var komið með bílpróf og fjölskyldubíllinn stefndi í að verða að bitbeini og jafnvel í stórhættu á að fá á sig ótímabærar skrámur lögðumst við í pælingar. Telpukornið var líka í stórhættu á að leggjast í djamm! Djamm kostar peninga og nú sáum við okkur leik á borði. Ef telpukornið væri látin í stórskuldir að hætti sannra íslendinga væri minni djammhætta því innkoman færi í að borga skuldir! Hún eignaðist nýjan einkabíl. Ökumaðurinn verður jú að vera edrú! Við hefðum fjölskyldubílinn í friði fyrir áhættuökumennsku. Var þetta ekki bara snilld. Henni fannst þetta frábært.
Það var pantaður nýr Trabant hjá IH og tekið bankalán. Nú gat stúlkubarnið ráðið sig í karlavinnuna sem var í tveggjastrætóstunda fjarlægð og gaf meira af sér en kvennavinnan í heimabænum!
Það var stórkostleg stund þegar nýir eigendur og nokkrir tugir Trabba hittust í porti á Ártúnsholtinu. Bílarnir voru ræstir af misóvönum Trabant ökumönnum. Blátt reykjarskýið lá yfir planinu og bílarnir tröbbuðu nafnið sitt glaðir í nýjum heimkynnum. Mín kona kom stolt eins og Range Rover eigandi akandi í hlað með pabbann sinn skælbrosandi í framsætinu. Þau voru æðisleg bíllinn og dóttirin. Bíllinn gekk undir nafninu Hraðbrandur. Þessi bíll var frábær í snjó og ófærð. Ef eitthvað stóð fyrir öðrum bílum þá smaug Trabantinn framhjá. Einu sinni lá okkur mægum á niður Laugaveg að kvöldlagi. Allt fast í snjó og við skutumst bara framhjá eftir gangstéttinni enda enginn á gangi í augnablikinu og bíllinn örmjór! Þegar frá leið þótti eigandanum grái liturinn full grár. Þá skelltum við mæðgur okkur í málningargallann og máluðum bílinn bleikan að framan en svartan að aftan og voru bleikar eldtungur þar sem litirnir mættust. Þessi glæsilegi bíll fékk bréf frá öðrum Trabanti sem var svartur og rauður með eldtungum, sá var orðinn Trabant"pikupp" tveggja manna töffarabíll. Hann vildi trúlofast okkar bíl! Eigendur bílanna hittust aldrei og ég veit ekki hvernig fór með trúlofunina. Eftir langa og dygga þjónustu endaði Hraðbrandur litli í margra bíla árekstri og var klesstur bæði að framan og aftan. Þótti ekki svara kostnaði að gera við hann eftir þau ósköp.
Seinna eignaðist ég svo Trabantakandi tengdadóttur. Þótti það kostur á stúlkunni þeirri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2008 | 22:38
Snjór og draugahestar
Snjór og tær rómantík að ríða út á fallegustu reiðvegum landsins! Við erum rétt farin að hreyfa gæðinga og bara gaman. Það er svooooo fallegt að ríða í gegn um furulundina hérna fyrir ofan Hafnarfjörð. Og ekki minnkar það þegar tréin eru þakin mjöll. Það heyrist varla í hestunum og rétt eins og maður líði áfram í draumi. Í kvöld gerðist nokkuð dularfullt. Það birtust tveir draugahestar í gerðinu okkar. Við erum nokkur um gerðið og enginn þekkti þessi tvö hross. Það upphófst mikil spæjara vinna. Enginn eigandi fannst lengi vel. Svo eftir magnaðar rannsóknir hafðist upp á manni sem átti von á hrossum í desember ef ferð félli til. Nú ferðin féll í dag, en enginn hafði fyrir því að láta viðtakanda vita og var hann bundinn í vinnu víðsfjarri hesthúsinu. Jarpur og Gráni eru þó komnir í hús og búnir að fá tuggu og allt er gott sem endar vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2008 | 22:20
Komin á moggablogg
Nú hef ég flutt mig hingað af gamla blogginu mínu. Það hefur ekki verið mikið bloggað undanfarið, þó ekki hafi vantað áhugaverð málefni. Til dæmis að fólk sem hefur grætt mikla peninga hratt er farið að tapa sömu peningum enn hraðar sem er auðvitað slæmt. Svo hefur það komið á þá bera í Grindavík að það snjóar á Íslandi í janúar! Svona streyma ávallt til manns fréttir sem hægt er að hafa skoðanir á.
En við hér í húsi höfum haft það náðugt um helgina og nutum lífsins í sameiginlegu sumahúsi allra starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar um helgina. Þetta er frábært hús í Skorradal. Þar var snjór yfir öllu og Skorradalsvatn ísilagt og rennislétt. Unaðslega fallegt. Sem sagt frábær helgi með manni,börnum og barnabörnum, heitum potti og einu stóru lambalæri og rauðvínsflösku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)